• Töfrandi brúðkaup

Óhefðbundin athöfn og frumlegt brúðkaupspartý Dagnýjar og Helga

Updated: May 12, 2020


Dagný og Helgi giftu sig hjá sýslumanni 19. júli 2019 og fóru þá leið að hafa athöfn með ættingjum og vinum daginn eftir, 20. júlí. Dagný segir svo skemmtilega frá að mér finnst bara alveg eins og ég hafi verið á staðnum með þeim eftir að hafa lesið brúðkaupssögu þeirra. Hún segir líka frá partýinu og þar eru margar skemmtilegar hugmyndir fyrir þau sem eru að byrja að undirbúa sinn eigin dag. Þessar gullfallegu ljósmyndir tók Michalina Okreglicka, ég mæli með að kíkja líka á instagrammið hennar, þar er mikið af myndum sem munu veita ykkur góðan innblástur í undirbúningnum.

,,Við höfum alltaf verið sammála um það að við vildum ekki halda hefðbundið brúðkaup. Þegar við skipulögðum daginn reyndum við að gera það þannig að brúðkaupið yrði skemmtileg og öðruvísi upplifun fyrir bæði okkur og gestina. Við erum bæði miklir náttúruunnendur og heilluðumst algjörlega að Rauðhólum í Heiðmörk sem staðsetningu undir athöfnina. Tveimur mánuðum fyrir brúðkaupið tókum við dag sem við gengum saman þvers og kruss um Rauðhóla í leit að fullkomnum stað og eftir þriggja tíma göngu fundum við loksins lítinn lund sem við kolféllum fyrir.

Við fengum mikla hjálp frá vinum og fjölskyldu við undirbúninginn. Þau týndu blóm með okkur sem mynduðu gangveginn og leiddu að athöfninni, hjálpuðu okkur að moka hestaskítinn af slóðanum að lundinum, settu upp stóla fyrir þá sem gátu ekki staðið og borð með kampavínsglösum svo við gætum öll skálað í lok athafnar, og tóku að lokum allt með sér til baka í bílana eftir athöfnina.

Við vorum síðan einstaklega heppin að hafa breiðan hóp af hæfileikaríku fólki í kringum okkur sem létti mikið undir kostnaðinum og álaginu við brúðkaupið. Vinkona mín er förðunarfræðingur og málaði mig fyrir daginn, vinur minn spilaði lag sem við völdum á gítar þegar ég gekk að athöfninni og önnur vinkona mín er bakari sem sá um brúðkaupstertuna ásamt því að vera veislustjóri í veislunni, og til að toppa þetta allt útvegaði hún líka svítu fyriri brúðkaupsnóttina.

Upprunalega planið var að við myndum gifta okkur hjá sýslumanni á föstudeginum með nánustu fjölskyldu og síðan myndi pabbi minn gefa okkur saman í táknrænni athöfn á laugardeginum. Plönin breyttust aðeins eftir gæsun sem ég var gestur í nokkrum mánuðum fyrir brúðkaupið. Sigga Kling kom þar að spá fyrir okkur og eftir spádóminn sátum við nokkrar saman að spjalla við Siggu þegar Sigga minnist á það í samræðunum að hún hefur stundum séð um skírnir og brúðkaup. Ég afsakaði mig strax inn á klósett og hringdi full tilhlökkunar í Helga. Spennan í röddinni hjá mér sannfærði hann fljótt um að láta það eftir mér að plata Siggu Kling til að gefa okkur saman. Sigga tók ótrúlega vel í þetta og bauð okkur saman heim til sín viku fyrir brúðkaupið að kynnast okkur betur.

Stemningin í athöfninni var mjög hlýleg og létt. Það hafði rignt allan daginn en það stytti upp klukkutíma fyrir athöfn með þvílíku blíðskaparveðri. Blómvendir vísuðu gestum veginn að lundinum og rigningin fyrr um daginn hafði bundið jarðveginn svo hann var ekki of þurr. Við eyddum klukkutímanum fyrir athöfnina í það að dreifa blómunum og setja upp stóla og kampavínsborðið með vinum og nánustu fjölskyldu. Þegar það fór að styttast í athöfnina kom ég mér fyrir með nokkrum vinkonum og pabba mínum bakvið hól meðan gestirnir komu sér fyrir.

Sigga skemmti fólkinu með fjaðrakústi og bröndurum meðan við biðum eftir síðustu gestunum. Þegar allir voru komnir byrjaði vinur minn að spila á gítarinn og ég gekk með pabba að hópnum.

Sigga stóð sig frábærlega og við hefðum ekki getað beðið um betri athafnastjóra. Hún tók sér góðan tíma til að kynnast okkur og var með fullkomna blöndu af gríni og hlýleika. Sigga kom með þá hugmynd að gestrinir myndu raða sér upp og hver og einn myndi "blessa" okkur með kveðjur eða ráðum. Okkur þótti mjög vænt um að heyra frá hverjum og einum og gerði stemninguna svo nána og fulla af umhyggju.

Eftir athöfnina skáluðum við öll í kvampavíni í lundinum áður en við Helgi héldum á stað í stutta myndatöku með ljósmyndaranum okkar Michalinu. Michalina tók einnig myndir af undirbúningnum og í athöfninni og fangaði andrúmsloftið einstaklega vel.

Veislan var haldin á efti hæðinni á Sólon. Við vildum alls ekki halda stífa og formlega veislu þannig við hugsuðum þetta alltaf meira eins og risastórt partý. Við byrjuðum herlegheitin á partýbingó með Siggu sem gaf út allskonar skrítna og skemmtilega muni í verðlaun. Sigga stóð sig frábærlega í að hrista aðeins upp í fólki með því að taka nokkra sigurvegara fyrir og láta þá dansa fyrir hina gestina. Eftir bingóið var boðið upp á vegan hlaðborð framreitt af Sólon og nóg af víni fyrir þá sem vildu. Brúðkaupstertan var borin fram þegar allir voru búnir að fara að minnsta kosti einu sinni á hlaðborðið.

Á meðan gestirnir borðuðu kökuna hélt mágkona Helga pubquiz með spurningum um okkur, þar á meðal hvernig við kynntumst, hvort okkar er betra að leggja í stæði, og hver tók fyrsta skrefið í sambandinu. Í veislunni vorum við með kveðjubók sem gestir gátu skrifað heilræði eða kveðju til okkar. Við fengum einnig myndakassa frá Myndapartý sem fólk gat gengið í allt kvöldið. Eftir pubquizið, þegar fólk var komið aðeins í glas, komu tveir plötusnúðar frá silentdisko.is og héldu stemningunni uppi með silent disko tónlist sem spilast í þráðlausum heyrnatólum. Við dreifðum líka sjálflýsandi hálsmenum, gleraugum og armböndum fyrir fólk til að dansa með. Silent diskoið var klárlega hápunktur dagsins og sló rækilega í gegn hjá öllum aldurshópum. Margir höfðu orð á því að þetta hafi verið skemmtilegasta brúðkaup sem þau höfðu farið í. Ég held að ég hafi dansað stanslaust í hátt í þrjá klukkutíma! Við enduðum veisluna síðan með nánustu vinum í misgóðu karaoke fram á nótt.

Það var ótrúlega frelsandi að segja skilið við allar hefðir og reglur fyrir brúðkaup og það hjálpaði okkur mikið við að festast ekki í smáatriðunum og að hafa ekki áhyggjur yfir því að allt yrði eftir bókinni. Við sjáum heldur betur ekki eftir því að hafa fylgt hjartanu og við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna og minningarnar“.


Hjartans þakkir til ykkar Helgi og Dagný fyrir að deila með okkur brúðkaupssögu ykkar og þessum fallegu myndum. Innilegar hamingjuóskir!


Eins og kom fram fyrir ofan var það Michalina Okreglicka sem tók myndirnar.


Vilt þú deila brúðkaupssögunni ykkar? Sendu mér póst á tofrandibrudkaup.is

Svo minni ég á að fylgjast með Töfrandi brúðkaup á instagram

751 views0 comments