• Töfrandi brúðkaup

Afhverju Töfrandi brúðkaup?Einhverjir kunna að spyrja sig hvað fær manneskju til að vilja sökkva sér svona ofan í brúðkaupsbransann svo úr verði þetta konsept, Töfrandi brúðkaup. Já það skal ég segja ykkur…


Í áraraðir hef ég starfað við viðburðarhald, allskonar tónleika og veisluhöld, bæði sem umboðsmaður tónlistarfólks og þegar ég vann sem markaðs- og verkefnastjóri í Gamla bíó fyrst eftir að það gullfallega hús opnaði eftir endurbætur, svo eitthvað sé nefnt.


Ég elska að setja upp viðburði, allan aðdragandann, leiða saman og vinna með ólíku fólki, svo ekki sé minnst á hápunktinn þegar viðburðurinn sjálfur á sér stað og stund. Elska það!


Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug þegar þú hugsar um brúðkaup? (hugsaðu í smástund…)Það fyrsta sem mér dettur í hug er kærleikur. Kærleikur í svo rosalegu veldi að hann er nánast áþreifanlegur. Brúðkaup eru ólík öllum öðrum viðburðum því þarna eru tveir einstaklingar sem ætlar að fagna ástinni og þeirri mögnuðu ákvörðun að vera saman til æviloka. Það er sko ekkert smá!

Og þetta gerir parið umvafin vinum sínum og ættingjum, sem hafa aðeins eitt markmið, að samgleðjast.

Hugsið ykkur nú gleðina sem fylgir því að vinna með þessu sama fólki að undirbúningi fyrir einn stærsta dag í lífi þeirra og eiga þátt í því að gera hann töfrandi og ógleymanlegan. Þarna, einmitt þarna hafið þið svarið.


En hvað er þetta konsept, Töfrandi brúðkaup?


Stutta svarið er blog, podcast, þjónustusíður og viðburðarþjónusta, allt í tengslum við brúðkaup.


Örlítið lengra svar:

Síðustu jól ákváðum við maðurinn minn að gifta okkur sumarið 2020 og eðlilega fór ég strax af stað í undirbúning, enda bara 6 mánuðir til stefnu og eins og fram hefur komið þá elska ég að skipuleggja skemmtilega viðburði.


Eins og flestir myndu gera, byrjaði ég á að fara á internetið og sjá hvort ekki væru einhverstaðar upplýsingar sem gætu veitt mér innblástur og auðveldað skrefin í átt að stóra viðburðinum. Ég var fljót að átta mig á því að það vantaði sárlega einhverskonar vefsíðu þar sem maður getur fengið upplýsingar á einum stað um þau þjónustufyrirtæki sem eru í þessum bransa ásamt fróðleik á íslensku um allt sem snýr að brúðkaupum. Mig langaði líka að lesa íslenskar reynslusögur og sjá myndir sem myndu veita mér innblástur í undirbúningsferlinu. Þá kviknaði á perunni.... auðvitað græja ég þetta bara og býð að auki upp á eigin þjónustu þar sem ég hef áralanga reynslu af viðburðarhaldi.


Þegar einn gluggi lokast opnast annar og það var það sem gerðist í lok mars þegar ég missti vinnuna sökum COVID. Þá setti ég allt á fullt eftir að hafa gengið með hugmyndina í maganum í nokkrar vikur. Ég fór í að búa til vefinn og koma öllu efninu úr hausnum á mér og á stafrænt form og úr varð vefurinn Töfrandi brúðkaup sem mig langar að verði fyrsti og síðasti viðkomustaður tilvonandi brúðhjóna í undirbúningi þeirra í átt að þessum stóra tímapunkti í lífi þeirra.

Ég vonast til að tilvonandi brúðhjón og þau ykkar sem hafið gaman að því að velta fyrir ykkur brúðkaupum, muni hafa bæði gagn og gaman af þessum vef. Ég stefni á vikulega podcast þætti þar sem ég fæ til mín ólíka gesti sem hafa frá einhverju fræðandi og skemmtilegu að segja og bloggfærslurnar verða vonandi nokkrar á viku.

Undir “þjónustuaðilar” má finna ýmsa þjónustu sem þið þurfið á að halda, en þetta er alls ekki tæmandi listi á þessum tímapunkti. Ég hvet áhugasama aðila til að skrá sína þjónustu neðst á þeirri síðu og vera með.

Síðast en ekki síst býð ég upp á fjórar þjónustuleiðir, allt frá stuðningspakka fyrir ykkur sem viljið gera þetta alveg sjálf upp í það að sjá alfarið um undirbúning og framkvæmd í góðu samstarfi við tilvonandi brúðhjón. Auk þess býð ég upp á það að búa til persónulega heimasíðu með RSVP sem virkar vel með eða í staðin fyrir boðskort.


Fylgist líka með á instagram, facebook, pinterest og fylgjið hlaðvarpinu á Spotify

Ég hlakka til að eiga samskipti við ykkur í framtíðinni og hvet alla þá sem hafa skemmtilegar hugmyndir eða uppbyggilegar athugasemdir til að senda mér línu á hallo@tofrandibrudkaup.is


197 views0 comments