• Töfrandi brúðkaup

Albert Eiríksson gefur góð ráð í fjórða þætti hlaðvarpsinsHverjar eru óskrifuðu reglurnar í veisluhöldum? Hverju “má” klæðast og hverju “má ekki” klæðast í brúðkaupum? Hvað einkennir góðan veislustjóra og hvað með gjafamálin? Hvað með mat, má allt? Má kalla brúðkaup brúðkaup eða tilheyrir það ef til vill liðinni tíð?Já það er svo sannarlega að mörgu að huga þegar kemur að brúðkaupum og til að fá álit á þessum atriðum og fleirum lá beinast við að fá Albert Eiríksson í spjall í hlaðvarpið. Hann heldur úti síðunni alberteldar.is og hefur ásamt Bergþóri manni sínum haldið námskeið í fjölmörg ár þar sem þeir fara yfir allt sem snýr að borðsiðum og hefðum þegar kemur að matarboðum og veislum. Þeir taka á móti hópum á heimili sínu og hafa um árabil verið mjög vinsælir fyrir gæsa- og steggjahópa.


Í kjölfar þáttarins sem kom út fyrir nokkrum dögum á hlaðvarpinu spruttu upp líflegar umræður á instagram um það hvort nota eigi orðið brúðkaup árið 2020 þar sem brúðir eru auðvitað löngu hættar að ganga kaupum og sölum, allavega hér á þessum slóðum þó svo því miður tíðkist það enn á öðrum stöðum í heiminum. Einnig kemur brúður ekki alltaf við sögu þar sem oft er um að ræða t.d. karlmann sem giftist karlmanni.


Það voru mjög misjafnar skoðanir á þessu máli og samkvæmt mjög óformlegri instagram könnun töldu um 60% svarenda að við ættum að halda áfram að nota orðið brúðkaup. Eins og ein sagði þá er þetta ekki endilega heppilegasta orðið en að fyrir hana tákni það eitthvað fallegt og yndislegt og bætti við að það mætti kannski segja að í dag snúist þetta um að fjárfesta í lífi hvors annars og sé þannig kaup kaups.

Aðrir stungu upp á því að nota bara einfaldlega orðið hjónavígsla yfir þetta og sleppa öllu tali um brúðkaup og aðrar uppástungur voru ástarfögnuður, hjónaveisla, gifting og giftingarveisla.


Já það má velta þessu fyrir sér en ég er búin að hugsa þetta fyrir sjálfa mig og eins og staðan er núna langar mig bara að blanda þessu öllu saman og leyfa orðinu brúðkaup að lifa svolítið lengur, enda tengi ég enga ógæfu við þetta orð yfir höfuð, nema ef til vill þegar ég fer að kryfja það til mergjar. En heilt yfir kviknar bara á fallegum hugsunum, ást og kærleika þegar ég hugsa um orðið brúðkaup.


En nóg um það!


Hlustið endilega á þáttinn þar sem Albert fer yfir ótal mörg mál sem snúa að veislunni sjálfri, undirbúningnum og síðast en ekki síst, gestunum sjálfum.

Ég má líka til með að mæla með því að fylgjast með Alberti á instagram þar sem hann er með skemmtilegt verkefni í gangi í allt sumar. Þá ætlar hann að ferðast um landið, ásamt Bergþóri og tengdapabba sínum Páli, borða góðan mat og upplifa allt það sem landið hefur upp á að bjóða.


Albert og Bergþór, stórglæsilegir að vanda!


Þáttinn er hægt að hlusta hér á síðunni, á spotify og í podcast appinu.


50 views0 comments