• Töfrandi brúðkaup

Borgaraleg gifting Hrafnhildar og Ása


Hrafnhildur og Ási giftu sig með borgaralegri hjónavígslu hjá sýslumanni í Keflavík 21. ágúst 2019 en brúðhjónin eiga heima í Garði á Suðurnesjum.


„Þrátt fyrir að við ákváðum að hafa þetta mjög lítið þá vildi ég gera daginn soldið sérstakann, svo ég ákvað að kaupa mér kjól og fá eina af mínum bestu vinkonum sem er förðunarfræðingur til að gera mig extra sæta“ sagði Hrafnhildur sem átti ekki alveg áfallalausan dag.

Þegar Hrafnhildur kom í förðun til Keflavíkur klukkutíma fyrir athöfn áttaði hún sig á því að vegabréfið gleymdist á heimili þeirra í Garði, en þar sem hún er ekki íslenskur ríkisborgari var nauðsynlegt að hafa það með. Þökk sé Sunnu, bestu vinkonu hennar, reddaðist þetta naumlega því hún skaust eftir vegabréfinu og dómarinn sem gifti þau var tilbúinn að bíða með að hefja athöfn þar til Sunna var komin aftur.


„Maðurinn sem gaf okkur saman heitir Helgi og ég gæti ekki mælt mikið meira með honum. Hann er snillingur og fagmaður fram í fingurgóma. Hann passaði það öllum stundum að þetta væri bara létt og þægilegt. Ég get seint ímyndað mér þægilegri athöfn og fannst dagurinn bara æði í alla staði. Fyrir ykkur sem hafið áhuga þá tekur þetta bara 5 mín. og svo bara skrifað undir og done!“


Þegar athöfnin var búin buðu Hrafnhildur og Ási sínum nánustu í veislu á heimili tengdaforeldra Hrafnhildar þar sem þau buðu upp á grillaða hamborgara og köku í eftirrétt.


Hrafnhildur var ekkert að tvínóna við hlutina, skellti upp svuntu yfir hvíta kjólinn og skar grænmetið á hamborgarana.

Hrafnhildur og Ási voru í skýjunum með brúðkaupsdaginn sinn og hún mælir með borgaralegri hjónavígslu hjá sýslumanni fyrir þá sem það vilja: Þetta er auðvitað fyrir engan annan gert en parið, sama hvort það séu 200 manns eða 5 sem njóta þess að fagna ástinni!“


Þá segir hún daginn einnig gefa tóninn fyrir „alvöru“ veisluna sem þau ætla að halda árið 2021.

„Ég er svo þakklát fyrir fjölskylduna mína og fólkið sem stendur mér næst. Ég sem hef alltaf látið mig dreyma um prinsessu brúðkaup, gæti ekki verið ánægðari með daginn með mínum nánustu. Ef þetta var eitthvað til að setja mark á hvernig brúðkaupsdagurinn verður þegar við verðum með „alvöru“ veislunna þá held ég að ég muni aldrei koma niður af bleika skýinu mínu.“
Ég þakka Hrafnhildi og Ása fyrir að deila með okkur þeirra brúðkaupsdegi.

Vilt þú deila þinni sögu? Sendu mér póst á hallo@tofrandibrudkaup.is

167 views0 comments