• Töfrandi brúðkaup

Brúðarkjólar og góð ráð frá Írisi í Brúðhjónum


Íris í versluninni Brúðhjón var gestur minn í öðrum þætti hlaðvarpsins. Það er margt sem kemur fram í þessum þætti sem konur í brúðarkjólahugleiðingum ættu að hlusta á. Hún kemur til dæmis inn á það hvernig ferlið í átt að því að finna rétta kjólinn getur verið, algeng verð á kjólum, hvað það er sem þarf að hafa í huga og fleira gagnlegt. Auk þess ræðir Íris til dæmis ástríðuna sem hún hefur fyrir starfi sínu og hvernig gengur að hjálpa konum að finna hinn eina sanna kjól.


Verslunin Brúðhjón, sem áður var Brúðkjólaleiga Katrínar, selur brúðarkjóla, fylgihluti og skó ásamt því að selja og leigja fatnað á herrana. Ég get vottað fyrir það prívat og persónulega að Íris og mamma hennar sem saman standa að versluninni, veita framúrskarandi þjónustu.


Í mínu tilfelli þá var ég búin að koma auga á draumakjólinn sem er frá Maggie Sottero og það vildi svo skemmtilega til að verslunin Brúðhjón er með umboð fyrir það merki. Ferlið var þannig að ég hafði samband við Írisi og benti henni á þennan kjól sem ég vildi panta, hún bauð mér í mátun þar sem ég gat mátað kjól í svipuðu sniði og fundið hvort ég fílaði mig í því. Þá tók hún af mér mál og sá alfarið um samskiptin við kjólahönnuðinn úti. Það var svo stór stund þegar ég fékk skilaboðin frá henni um að kjóllinn væri kominn, ég gat satt að segja ekki beðið eftir að máta hann. Í stuttu máli sagt þá er kjóllinn fullkominn, en þess má geta að ég er það mikil kjólakona að fólk sem þekkir mig rekur upp stór augu ef það sér mig í buxum. Þannig eðlilega er þetta kjóll lífs míns og ég hlakka mikið til að vera í honum þegar að því kemur.

Brot af þeim kjólum sem í boði eru í versluninni Brúðhjón


Eins og Íris segir í viðtalinu þá er þetta alls ekki alltaf svona sem þetta gengur fyrir sig, oft koma konur í nokkur skipti til að gera upp hug sinn varðandi það hvaða kjól þær vilja kaupa. Það er mjög mikilvægt að gefa sér góðan tíma í þennan hluta skipulagsins og þetta er eitt af því fyrsta sem tilvonandi brúður ætti að huga að í skipulagsferlinu. Að því sögðu þá eru auðvitað líka einhverjar sem græja þetta með tveggja daga fyrirvara og eru ekki mikið að velta þessu fyrir sér, sem er stórkostlegt í sjálfu sér.Ég bað Írisi að gefa ykkur góð ráð, byggð á áratuga reynslu þeirra mæðgna.


Skilja við stressið Að skipuleggja brúðkaup er stórt verkefni fyrir brúðhjón og því getur oft fylgt mikið stress. Engu að síður má ekki gleyma að ferlið sjálft getur verið einstaklega skemmtilegt og margar minningar skapast. Reyndu að hafa ekki of mikið álag og byrjaðu snemma að skipuleggja. Góður to-do listi er til dæmis gulls ígildi!


Vertu smá sjálfselsk/ur Ekki gleyma að láta taka myndir af ykkur í sitthvoru lagi. Eins og para- og fjölskyldumyndirnar geta verið yndislegar er ómissandi að eiga myndir af ykkur í sitthvoru lagi. Þetta má ná fram í myndatökunni eða með því að fá ljósmyndara til þess að taka undirbúningsmyndir. Þessar myndir þykir hinum aðilanum einna mest vænt um og þú getur kíkt reglulega á hvað þú varst flott/flottur á deginum!


Neyðarkitt er must Mjög mikilvægt í öllum brúðkaupum! Þú getur bjargað svo mörgum slysum með litlu neyðarveski með þessu helsta. Gott er að gefa vinkonu/vini þetta verkefni. Það getur til dæmis verið gott að hafa þar nál, tvinna, krók, tölu, verkjatöflu, fatalím, litil skæri, varasalva, dömubindi, tissjú, teygjur og spennur.


Myndartökudama Fáðu eina nána þér til þess að aðstoða í myndatökunni. Sú hin sama röltir bara á svæðinu og gefur ykkur næði þegar þarf en er til staðar til að laga slóða, slör eða hárið svo að ljósmyndarinn getur einbeitt sér að því að ná rétta mómentinu. Einnig er það tilvalið ef að börn eru með í myndatökunni til þess að aðstoða með þau á milli myndartakna.


Borðaðu!! Ekki gleyma að fá þér að borða. Gott væri að láta myndartökudömuna taka létt nesti með í myndatökuna ef það gefst ekki tími til þess að borða yfir daginn.


Myndataka fyrir brúðkaup Það getur verið erfitt að ákveða hvort myndatakan eigi að vera fyrir eða eftir athöfn. Það er þó algengast að brúðhjón fari eftir brúðkaup en þessu fylgir kostir og gallar. Ef þú ákveður að ef að þið farið í myndatöku fyrir brúðkaup mæli ég með því að kynna ykkur “first look”. Það gefur ykkur tækifæri að fá þetta móment þegar þið sjáið hvort annað í fyrsta skipti á deginum á filmu í fallegu umhverfi.


Blettir Ef svo óheppilega vill til að það sullist rauðvín í kjólinn er gott að þrýsta þurrum klút á blettinn til að ná mesta víninu. Síðan er gott að nota sódavatn og þrýsta aftur. Endurtaktu með hreinum klút í hvert skipti þar til að bletturinn minnkar eða hverfur. Hvað sem þú gerir EKKI nudda. Eftir brúðkaup er um að gera að fara með kjólinn í hreinsun sem allra fyrst, innan 7-10 daga.


Virkja fólk í kringum þig Ekki gleyma að nýta þá aðstoð sem bíðst. Um að gera að nota þjónustu líkt og Töfrandi Brúðkaup býður upp á, hvort sem að það er að hluta til eða að öllu leiti. Það er líka alltaf mikilvægt að virkja fólkið í kringum sig og fá aðstoð við allt sem þú mögulega getur fengið aðstoð við. Ykkar nánustu vilja ekkert meira en að taka þátt í deginum og aðstoða.


Gestalistinn Þessi þáttur brúðkaups undirbúningsins getur verið algjör hausverkur. Hin gullna regla er þó: bjóddu einungis þeim sem gera daginn þinn enn betri. Það skiptir ekkert annað máli, hvorki fjölskyldutengsl, vináttualdur né “ef ég býð þessum verð ég að bjóða þessum”. Ef það stuðar einhvern þá er það bara þannig. Á endanum er þetta ykkar dagur.


Klósettferðin er með skemmtilegri minningunum Algengasta spurningin sem ég fæ er - hvernig á ég að fara á klósettið í þessum kjól?! Það eru í rauninni þrjú skref. 1. Vertu með 1-2 vinkonur til þess að hjálpa þér. Ekki verra ef að sú hin sama er tilbúin að hoppa til við lítið merki. 2. Láta hana/þær rétta þér innsta faldinn í kjólnum og setjast öfugt á klósettið. 3. Taka myndir af þessu fyndna mómenti!


Þáttinn er hægt að hlust á hér á síðunni, á Spotify og í Podcast appinu.

569 views0 comments