• Töfrandi brúðkaup

Endurnýjuðu heitin með hjónavígslu að ásatrúarsið


Einn af okkar ástsælustu tónlistarmönnum, Magnús Þór Sigmundsson og kona hans Jenný Borgedóttir höfðu verið höfðu verið hjón í 25 ár þegar þau endurnýjuðu heitin með hjónavígslu að ásatrúarsið. Hjónavígslan var í garðinum þeirra í Hveragerði á fallegum sumardegi 22. júní árið 2018 þar sem samankomnir voru vinir og fjölskylda til að fagna ástinni með þeim. Það var einmitt á þessum árstíma, sumarsólstöðum árið 1987 sem þau Magnús og Jenný hófu sitt samband í fjörunni við Bessastaði og því táknrænt að endurnýja heitin á sumarsóstöðum um 30 árum síðar.


Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði stýrði athöfninni og nú kunna margir að spyrja sig hvernig hjónavígsla að ásatrúarsið fari fram. Hilmar Örn svaraði því í viðtali við Morgunblaðið árið 2008

„Grunnhugmyndin er sú að brúðhjónin gifta sig sjálf. Þau skiptast á eiðum, stundin og ábyrgðin er þeirra, enda eru þeim ekki lagðar neinar lífsreglur við athöfnina. Það er hins vegar hlutverk goðans að helga stað og stund og kalla til viðeigandi goðmögn, yfirleitt þrjá guði og þrjár gyðjur, brúðhjónum til farsældar. Hver athöfn er einstök því þær eru ætíð

sniðnar að óskum og áherslum brúðhjónanna sjálfra. Stundum felst það í því að fleiri goð eru kölluð fram þeim til fulltingis, stundum fær tónlist meira vægi og stundum koma vinir eða ættingjar að athöfninni með upplestri eða persónulegu framlagi. Athafnir fara með fáum undantekningum fram utandyra, kveiktur er eldur og brúðkaupsgestir slá hring um brúðhjónin. Hápunktur athafnarinnar er þegar brúðhjónin sverja hvort öðru tryggðar- og trúnaðareiða og leggja hönd á stallahring sem goðinn heldur á.“

Á heimasíðu Ásatrúarfélagsins kemur fram að ásatrú, eða heiðinn siður, byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni. Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum. Þar segir líka að það að kalla siðinn ásatrú er í raun villandi þar sem átrúnaður er ekki einungis bundinn við æsi, heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður. Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög.


Jenný geislandi falleg með blómakrans gerðan úr blómum úr garðinum


Eins og áður sagði er Magnús Þór einn af okkar ástsælustu tónlistarmönnum og gaman að segja frá því að hann samdi lagið Ást sem flestir þekkja í flutningi Ragnheiðar Gröndal og má næstum fullyrða að sé eitt vinsælasta lagið í brúðkaupsathöfnum á Íslandi síðustu ár. Þá samdi hann líka Ást við fyrstu sýn, bæði lag og texta, einmitt um Jenný sína. Það er hægt að hlusta á bæði þessi lög hér fyrir neðan. Tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason og Magnús Þór skipuðu saman dúettinn Magnús og Jóhann, en þeir hófu samstarf sitt fyrir um það bil hálfri öld, hafa samið ógrynni laga og spila enn reglulega saman. Jóhann var að sjálfsögðu á meðal gesta og hér má sjá fallega mynd af þeim félögum.Að hjónavígslu lokinni buðu Magnús og Jenný upp á mat sem vinur þeirra Rúnar Marvinsson hafði töfrað fram og gestir nutu sín vel, ýmist í garðinum sem var allur í blóma eða inn á litríku heimili þeirra.


Að sjálfsögðu var bæði sungið og spilað, enda svo gott sem annar hver veislugestur tónlistarmaður.


Ömmu- og afabörnin nutu sín vel í garðinum og eðlilega fengu ömmustelpurnar líka blómakrans.


Magnús og Jenný eiga mikið ríkidæmi og hér eru þau ásamt Hilmari allsherjargoða með afkomendum sínum og mökum þeirra.


Ég vil þakka Magnúsi og Jenný fyrir að deila myndum frá þessum fallega degi í lífi þeirra.


Ást í flutningi Magnúsar Þórs


Ást við fyrstu sýn í flutningi Páls Óskars og Moniku


Myndirnar tók Krissy


Vilt þú deila myndum úr þínu brúðkaupi? Sendu mér póst á hallo@tofrandibrudkaup.is

143 views0 comments