• Töfrandi brúðkaup

Eva og Birkir segja frá brúðkaupsundirbúning á tímum COVID-19


Eva Ýr Óttarsdóttir og Birkir Veigarssson eru verkfræðingar, búsett í Stokkhólmi í Svíþjóð. Þar hafa þau búið og starfað í að verða 7 ár en kynntust í verkfræðinámi heima á Íslandi fyrir 10 árum síðan. Þau eru ein af þeim fjölmörgu pörum sem ætluðu að gifta sig árið 2020 en eins og allir vita hefur COVID sett mikið strik í reikninginn fyrir öll tilvonandi brúðhjón eins og svo marga aðra. Algengustu leiðirnar sem tilvonandi brúðhjón hafa farið er að fresta brúðkaupi um ár eða óákveðin tíma, gifta sig á tilsettum degi og halda veislu síðar eða stefna áfram á óbreytt plön um að gifta sig í sumar með von um að þau plön geti staðist miðað við þágildandi reglur. Það eru örugglega margir sem hafa óskað þess að geta séð inn í framtíðina á þessum tímum því óvissan er eðlilega ein af erfiðustu hliðum þessa máls. Eva og Birkir deila hér með okkur hvernig þau ætla að spila úr þessum COVID spilum sem enginn bað um.


2020 er árið….!

Um haustið 2019 ákváðum ég og kærasti minn loksins að byrja að plana brúðkaup. Fyrsta spurningin sem kom upp var að sjálfsögðu hvenær brúðkaupið ætti að eiga sér stað. Ég byrjaði strax að skoða dagatalið og telja upp skemmtilegar dagsetningar árið 2020. 


Þegar ég sá að 06.06.2020 var laugardagur vissi ég að það yrði dagurinn sem við myndum velja. Ekki nóg með að 06.06 er þjóðhátíðadagur Svía og við munum alltaf vera í fríi þennan dag (svo lengi sem við búum í Svíþjóð) heldur er 06.06 líka brúðkaupsdagur foreldra brúðgumans og þau munu halda upp á 50 ára brúðkaups afmælið sitt árið 2020. 


Dagurinn var einfaldlega of fullkomin til að sleppa. 


Næstu skref í brúðkaupsundirbúningnum voru nokkuð hefðbundin. Þar sem við búum í Svíþjóð þá langaði okkar að halda þetta heima á Íslandi nálægt fjölskyldu og vinum og geta loksins notað tækifærið og boðið öllum erlendu vinum okkar að koma til Íslands í heimsókn. Við höfðum einnig planað að eyða viku eftir brúðkaupið með erlendu vinum okkar og ferðast með þeim um Ísland. 


Í febrúar höfðum við bókað flest allt og stóri dagurinn var loksins farin að taka á sig mynd og manni var óneitanlega farið að hlakka til. 



Óboðni gesturinn Covid-19 aka Corona 

Eins og allir vita þá skall heimsfaraldur skyndilega á í mars 2020. Í byrjun vorum við mjög róleg (eins og flestir) og héldum að þetta yrði fljótt að róast aftur. 

Í apríl ætlaði systir mín að gifta sig og með tilkomu samkomubannsins var hún neydd til að fresta sínu brúðkaupi og á þeim tímapunkti var það orðið ljóst að þessi veira var komin til að vera í einhvern tíma. Við héldum samt sem áður ennþá í vonina og ákváðum að taka engar ákvarðanir um framhaldið fyrr en í byrjun maí. 

Um páskana var það nokkuð ljóst að það yrði mjög erfitt fyrir okkur að komast heim til Íslands yfirhöfuð, og ef við kæmum heim þyrftum við að vera í sóttkví í 14 daga auk þess sem einn þriðji af gestum okkar eru erlendir þá hefðu þeir ekki getað komið til Íslands.

Fljótlega eftir páska tókum við ákvörðunina að fresta brúðkaupsveislunni á Íslandi um óákveðin tíma þangað til hlutirnir færu að skýrast betur. 


Ég verð að segja að þegar við tókum þá ákvörðun var þungu fargi af mér létt þar sem óvissan um hvort við gætum haldið þetta á settum degi var mjög óþægileg. Ákvörðuninn var alls ekki létt en það voru margir hlutir sem urðu að ganga upp fyrir okkur til að þetta yrði að veruleika s.s. koma okkar til Íslands, koma þriðjungs gesta til Íslands, tveggja metra reglan á Íslandi, fjöldatakmarkanir vegna samkomubanns, gestir í áhættuhópum og svo almennt stemningin fyrir að halda brúðkaup þegar allir eru stressaðir. Allir þessir þættir gerðu okkur aðeins léttara fyrir að taka ákvörðunina. 


Þrátt fyrir að við ákváðum að fresta veislunni heima á Íslandi langaði okkur ennþá að gifta okkur þennan dag. Manni var búið að hlakka til svo lengi og hugsunin að 06.06 myndi ganga í garð án þess að við myndum gera neitt sérstakt var mjög súr. Auk þess var þessi dagur valinn af ástæðu (og hringarnir höfðu nú þegar verið grafnir með henni ;) ) Okkur langaði að halda í hann svo brúðkaups undirbúningur 2.0 hófst! 



Brúðkaup 2.0 

Undirbúningur fyrir lítið garðbrúðkaup hérna úti í Stokkhólmi hófst því á síðustu stundu. Við höfðum samband við alla vini okkar hérna úti og flestir hafa staðfest komu sína þrátt fyrir aðstæður. Við báðum síðan vini okkar endilega að láta vita ef þeir gætu hjálpað okkur með nokkra hluti þar sem okkur langar að halda kostnaði niðri og hafa þetta mjög persónulegt. Ein vinkona mín er á fullu að gera skreytingar þar sem hún er heima í fæðingarorlofi og vantaði nauðsynlega skemmtilegt föndur verkefni. Önnur vinkona mín er búin að taka að sér að vera yfir smakkari fyrir allar kökurnar og matinn ég er búin að vera að prófa að gera fyrir stóra daginn. Síðan eru allir aðrir búnar að bjóðast til að hjálpa okkur með undirbúning þegar nær dregur. 

Því miður erum við búin að komast að því að við eigum enga vini með leynda tónlistar né myndatöku hæfileika en við finnum eitthvað út úr því. 


Planið er að halda litla athöfn á klettunum við sjóinn sem eru hérna í 5 mínútna fjarlægð frá húsinu okkar og við fundum meira að segja Íslenskan prest sem mun gifta okkur :) 

Síðan munum við halda garðpartý hérna í bakgarðinum hjá okkur eftir athöfnina svo við krossum fingur að við fáum fallegt veður þennan dag þar sem við getum ekki tekið á móti öllum gestunum í litlu 50fm íbúðinni okkar. 


Spennan stigmagnast og þetta verður fullkomin general prufa fyrir stóra brúðkaupið á Íslandi! Síðan þarf maður bara að horfa á jákvæðu hliðarnar og með þessu móti höfum við fullkomna ástæðu til að halda 2 brúðkaup eitt hérna úti og annað heima á Íslandi! 





Eva og Birkir ætla að deila með lesendum myndum frá brúðkaupsdegi þeirra 6. júní síðar í sumar, ég er mjög spennt að sjá þær og er viss um að þetta verður stórkostlegur dagur. Ég óska Evu og Birki alls hins besta í undirbúningnum og þakka þeim fyrir að deila þeirra reynslu með okkur.


Ef þú hefur sögu sem þig langar að deila, þá vil ég gjarnan heyra frá þér á hallo@tofrandibrudkaup.is

Vertu með á instagram :)

192 views0 comments