• Töfrandi brúðkaup

Giftingarathöfn í tengslum við Móður Jörð, verur og vætti Íslands


Mig langar að deila með ykkur ólíkum nálgunum á giftingarathafnir og miðla ólíkum leiðum sem í boði eru fyrir fólk sem vill gifta sig en er ef til vill ekki að tengja við það sem kallast oft hefðbundna leiðin. Ég hef nú þegar skrifað um giftingu að ásatrúarsið, þegar tónlistarmaðurinn Magnús Þór og Jenný endurnýjuðu heitin í fallega garði sínum umvafin vinum og ættingjum. Nú langar mig að segja frá giftingu þar sem tilgangurinn er að tengjast Móður Jörð og biðja elementin Jörð, Vatn, Eld og Loft að blessa sambandið.

„Giftingarathöfn er ein mikilvægasta athöfnin í lífi okkar. Hvert ástarsamband er einstakt og hvert par ber einstaka orku. Því er mikilvægt að útbúa einstaka athöfn að þessu tilefni“ segir seiðkonan Unnur Arndísardóttir, eða Úní, sem býr til athafnir við hin ýmsu tækifæri.

Helgar athafnir og stundir í náttúrunni hafa fylgt Úní frá unga aldri. Móðir hennar, Arndís Sveina, nuddari, heilari og seiðkona, kenndi henni að trúa á sjálfa sig og Móður Jörð. Með ástríðu og kærleik í hjarta hefur Úní ferðast víðsvegar um heiminn og lært mismunandi hefðir og andlegar leiðir. Allar þessar ferðir leiða hana alltaf í heimahagann til Íslands, þar sem hún hefur og finnur mikla tengingu við orku og verur í íslenskri náttúru. Hún helgar líf sitt Gyðjunni og Móður Jörð og á sér draum um að opna fyrir hina töfrandi og dulmögnuðu orku Íslands og færa Norræna leið fegurðar og heilunar til heimsins.

„Ég útbý giftingarathafnir þar sem við biðjum elementin Jörð, Vatn, Eld og Loft að blessa sambandið. Við köllum á Gyðjur, Goð, Verur og Vætti til að verða vitni að þessari sameiningu tveggja sálna og biðjum Móður Jörð og orku Alheimsins að blessa sambandið og neistann sem býr á milli þessa tveggja einstaklinga. Giftingarathöfnin er alltaf unnin og útbúin í nánu samstarfi við brúðhjónin“.

Uní bjó lengi í New Mexico í Bandaríkjunum þar sem hún lærði meðal annars athafnir Indjána.

„Ég hef lært mismunandi hefðir á ferðalögum mínum um heiminn, til dæmis hjá Indjánum í Norður Ameríku, Gyðjuathafnir að Keltneskum sið auk þess sem við Reynir Katrínar galdrameistari höfum unnið saman síðustu 17 árin að því að útbúa athafnir tengdar Norrænu Goðafræðinni.“

Uní lærði að framkvæma og útbúa athafnir í Glastonbury í Englandi og helgar líf sitt Gyðjunni og athöfnum tengdum hinni kvenlegu orku heimsins. Í Gyðjuskóla Kathy Jones í Avalon í Glastonbury fékk Úní titilinn Systir Avalon og lærði athafnir að breskum heiðnum sið.

„Það eru til svo margir fallegir og kraftmiklir staðir í náttúrunni og því svo auðvelt að útbúa eitthvað töfrandi. Ég er hér fyrir þau pör sem vilja gera eitthvað öðruvísi og meira í tengslum við Móður Jörð, verur og vætti Íslands.

Þegar við Jón Tryggvi maðurinn minn giftum okkur þá fórum við til sýslumanns og giftum okkur á pappírum, en bjuggum svo til okkar eigin athöfn. Við fengum töfrakonur til að gifta okkur og ég bjó til athöfnina sjálf. Við giftum okkur úti á heilögum stað okkar fjölskyldunnar, í garðinum hjá mömmu og stjúp-pabba.

Ég trúi á Guðlega orku í náttúrunni og trúi því að við getum tengst Móður Jörð betur í gegnum athafnir okkar og umgengni við náttúruna. Tíminn er kominn til að hlusta, sjá og skynja, í gegnum athafnir til heilla Móður Jarðar“.


Ef þú hefur áhuga á að komast í sambandi við Úní eða vita meira þá er hægt að gera það með því að senda póst á uni@uni.is og skoða heimasíðuna uni.is


237 views0 comments